Leikreglur

MEISTARADEILD Í HESTAÍÞRÓTTUM

LEIKREGLUR 

Orðskýringar: 

Hestaíþróttir; nær yfir flest allar keppnisgreinar tengdar íslenska hestinum. 

Hagsmunaaðilar; eru knapar, kostunaraðilar, áhorfendur og fjölmiðlar. 

1 FORM 

1.1 Meistaradeildin er einstaklings- og liðakeppni. 

1.2 Keppendur eru 32-40. 

1.3 Liðin eru allt að 8 talsins með 4-5 knöpum hvert, þrír knapar úr hverju liði keppa í hverri grein

1.4 Keppnisgreinar eru fjórgangur, gæðingafimi, fimmgangur, tölt, 150m skeið, gæðingaskeið, slaktaumatölt og flugskeið. 

1.5 Lið getur á hverju tímabili kallað til knapa sem 3ja knapa utan liðs til keppni í einni grein og skal greiða auka þátttökugjald. Stig parsins teljast með í stigasöfnun liða. Knapi má einungis keppa fyrir eitt lið á tímabili. Stjórn skal samþykkja knapa og skal knapi hafa keppnisrétt innan FEIF.

1.6 Einn einstakur knapi getur keypt sér keppnisrétt í hverri grein sem 25. knapi. Hann vinnur sér ekki inn stig nema ef knapi sé í liði í deildinni þá safnar hann stigum í einstaklingskeppninni. Stjórn ákveður þátttökugjald, vilji fleiri en einn taka þátt mun hæstbjóðandi gilda. Skráningarfrestur er hádegi á skráningardegi. Stjórn skal samþykkja knapa.

2 STIG 

Árangur keppnisliða og einstaklinga er mældur í stigum. 

2.1 Í einstaklingskeppninni fá 10 efstu knapar stig. 1. sæti gefur 12 stig, 2. sæti 10 stig, 3. sæti 8 stig, 4. sæti 7 stig, 5. sæti 6 stig, 6. sæti 5 stig, 7. sæti 4 stig, 8. sæti 3 stig, 9. sæti 2 stig og 10. sæti 1 stig. 

2.2 Knapi sem safnar flestum stigum á keppnistímabili er sigurvegari deildarinnar o.s.frv. 

2.3 Í liðakeppninni eru stigin frá 1 til 24 og skilar sigurvegari keppnisgreinar 24 stigi til síns liðs. Sá sem er númer tvö í keppnisgrein skilar 23 stigum til síns liðs o.s.frv. 

2.4 Lið sem safnar flestum stigum yfir keppnistímabilið vinnur Meistaradeild. 

2.5 Séu tveir eða fleiri knapar jafnir í efsta sæti sýna dómarar sæta röðun knapa. Ef knapar eru jafnir í öðru sæti en því fyrsta, deila þeir með sér sætinu. Hlutkesti ræður úthlutun verðlauna. Verði knapar jafnir í keppnisgrein skiptast stigin jafnt á milli þeirra og á það jafnt við um liðakeppnina og einstaklingskeppnina. Engu breytir ef keppendum er úthlutaður verðlaunagripur skv. uppkasti. Fari fram dómaraúrskurður falla stigin hins vegar eftir þeirri niðurstöðu. Verðlaunafé fylgir reglum um stig, þ.e. ef knapar deila með sér stigum deila þeir verðlaunafé einnig. 

2.6 Knapi sem gerir ógilda sýningu eða hlýtur 0 í einkunn hlýtur hann 0 stig. Annað gildir um keppendur í skeiði en ef sá knapi fær 0,0 sek. fyrir tíma hlýtur hann samt stig og deilir með öðrum knöpum með engan tíma. 

3 ÚRSKURÐUR UM FYRSTA SÆTI Í KEPPNISGREIN OG SAMANLÖGÐUM ÁRANGRI. 

3.1 Í keppnisgreinum þar sem niðurstaða byggist á spjaldadómum skal skorið úr um fyrsta sæti með sæta röðun dómara

3.2  Í skeiðkappreiðum eru tveir sprettir og vinnur sá sem hefur besta tímann, ef tveir eru jafnir vinnur sá sem hafði betri tíma úr fyrri spretti.

3.4 Ef tveir knapar eru jafnir í samanlagðri stigasöfnun eftir lokamót Meistaradeildar vinnur sá sem hefur unnið fleiri greinar. Ef knaparnir hafa jafn mörg gull ráða þá silfrin og ef þau eru jafn mörg þá bronsin o.s.frv. 

3.5 Ef tvö lið eru efst og jöfn í samanlögðum stigum eftir lokamót Meistaradeildar vinnur það lið sem fleiri greinar vann í mótaröðinni, ef þau standa þá enn jöfn vinnur það lið sem oftar var í öðru sæti keppnisgreinar o.s.frv.

4 VERÐLAUN 

4.1 Verðlaunagripir eru 6 í hverri keppnisgrein. Þrír efstu knapar í samanlögðum árangri á keppnistímabili fá verðlaunagripi. Farandgripur gefinn af Árna Höskuldssyni gullsmið er farandgripur í einstaklingskeppninni. 

4.2 Efsta lið eftir keppnistímabil fær verðlaunagrip og farandgrip sem gefinn var af Landsambandi hestamannafélaga. Allir einstaklingar keppnisliðs, sem sigrar, fá verðlaunagrip. 

4.3 Upphæð peningaverðlauna er ákveðin í upphafi hvers keppnistímabils. Stigahæsti knapi og stigahæsta liðið á hverju móti fá peningaverðlaun. Stigahæsti knapi í mótaröðinni og stigahæsta liðið fá peningaverðlaun.  

5 KEPPNISGREINAR OG REGLUR 

5.1 Keppt er eftir FIPO reglum í keppnisgreinum sem þær reglur ná yfir, tölti, slaktaumatölti, gæðingaskeiði, 150m skeiði, fjórgangi og fimmgangi. Horft er framhjá þeim annmarka að oftast er keppt á minni velli en gert er ráð fyrir í FIPO. Sérstakar reglur gilda um, gæðingafimi, flugskeið og útfærslu á 150 m skeiði. 

5.2 Séu breytingar frá FIPO reglum leyfðar eða ákveðnar skal yfirdómari koma þeim upplýsingum á framfæri með skýrum hætti á knapafundi eða á annan sannanlegan hátt. 

5.3 Sami hestur má keppa í öllum greinum Meistaradeildar í hestaíþróttum. 

5.4 Gæðingafimi 

Sjá viðauka gæðingafimi

5.5 Flugskeið 

Skeiðkeppni í gegnum reiðhöll. Sprettfærið er misjafnt eftir reiðhöllum. Tíminn er mældur með sjálfvirkum tímatökubúnaði og er útfærsla svipuð og í 100 m skeiði. Í forkeppni ríða allir knapar tvo spretti, knapa er þó heimilt að sleppa seinni sprettinum ef hann vill. 

5.6 150m skeið

Skeiðsprettirnir eru að öllu leyti hefðbundnir og er tímatakan framkvæmd með sjálfvirkum búnaði. Gert er ráð fyrir að startbásar rúmi tvo eða fimm hesta. Í forkeppni ríða allir knapar tvo spretti, besti tíminn gildir, sætaröðun markast af tíma knapa. Ef tveir knapar eru jafnir sigrar sá sem hefur betri tíma eftir fyrri ferð. 

5.7 Hámarksfjöldi hesta í úrslitum skal vera 6. Ef fleiri en einn hestur er í 6 sæti skal meðaltal 5 dómara gilda, ef hestar eru enn jafnir þá skal sætaröðun 5 dómara gilda. 

6 REIÐMENNSKA 

Dómarar geta gefið knöpum gul eða rauð spjöld eftir atvikum ef þeim finnst að knapar séu of grófir í sinni reiðmennsku. Stuðst er við viðmiðunarreglur FIPO. Jafnvel þótt fleiri en einn dómari gefi gult spjald fyrir ákveðið tilvik telst það eitt gult spjald í Meistaradeild í hestaíþróttum. Fyrir hvert gult spjald umfram eitt á keppnistímabili verða 2 stig dregin af knapa í heildarstigasöfnun einstaklingskeppninnar. Ef knapi fær rautt spjald er honum vikið úr viðkomandi keppnisgrein og fær að auki í frádrátt 5 stig í heildarstigasöfnun einstaklingskeppninnar. Þetta á eingöngu við um þau atvik þegar knapi fær rautt spjald vegna grófrar reiðmennsku, en ekki í þeim tilfellum þegar rautt spjald er gefið af tæknilegum ástæðum t.d. ef fer úr braut eða riðið er of marga hringi o.s.frv. 

7  KEPPENDUR / KNAPAR

7.1    Knapar sem taka þátt í Meistaradeild í hestaíþróttum skulu vera fullgildir meðlimir í hestamannafélagi sem er í Landsambandi hestamanna. Þar sem Landsamband hestamanna er fullgildur aðili að Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ), gilda lög og reglur ÍSÍ er varða íþróttamenn um knapa Meistaradeildar í hestaíþróttum.

7.2  Lágmarksaldur keppenda í Meistaradeild er 16 ára, 17 ára á árinu.

7.3   Meginregla er að knapar keppi fyrir sama lið frá ári til árs.  Ef lið eða liðsmenn telja að breytinga sé þörf, þurfa aðilar að leita til stjórnar Meistaradeildar sem hefur þá það hlutverk að leysa málið í samráði við málsaðila með reglu 7.4 til hliðsjónar. 

7.4 Hlutverk stjórnar er að tryggja hæfni knapa í Meistaradeild í hestaíþróttum og standa vörð um hag Meistaradeildarinnar og hagsmunaaðila. Til viðmiðunar hefur stjórnin m.a. niðurstöðu í mótaröð Meistaradeildar í hestaíþróttum tvö síðustu keppnistímabil, tilnefningar til knapaverðlauna og árangur á öðrum mótum. 

7.5   Stjórn Meistaradeildarinnar auglýsir eftir liðum og knöpum fyrir 20. júlí ár hvert. Eigi viku síðar tilkynnir stjórnin liðseigendum hvaða knapar og lið hafa sótt um þátttöku í deildinni.

7.6 Ef liðseigendur koma sér ekki saman um knapa þá er litið svo á að um nýtt lið sé að ræða og fer í umspil.

7.7 Ef fleiri en 8 lið sækja um þátttöku í deildinni keppir neðsta liðið við ný lið sem sækja um.

7.7.1  Fyrirkomulag:  3 knapar í hverju liði keppa í úrtöku í hverri grein sem og nýir knapar sem sækja um.  Keppt er í T1, V1, F1 og flugskeiði. Halda skal úrtökuna á einum degi.   

7.7.2 Úrtaka skal haldin fyrir 1. september ár hvert. 

7.7.3 Stjórn hverju sinni ákveður þátttökugjald í úrtöku. 

7.7.4 Fullskipuð lið eru tilkynnt á aðalfundi deildarinnar. 

7.9  Knapar og aðstandendur viðkomandi liðs geta leitað skýringa til yfirdómara allt að sólarhring eftir að keppni lýkur. Sé knapi vís um að eiga í óviðeigandi samskiptum við dómara um dóma á keppnistímabili, getur hann átt á hættu að vera refsað með keppnisbanni í næstu grein.
 
7.10 Knapar eru ávallt til fyrirmyndar innan sem utan vallar, taka þátt í deildinni á eigin ábyrgð og vinna eftir samþykktum og leikreglum deildarinnar.
 
7.11 Knapar taka þátt í markaðsstarfi deildarinnar m.a. með viðtölum, myndatöku og á samfélagsmiðlum.

8 FORFÖLL KNAPA 

8.1 Varanlegt forfall 

Þurfi knapi að hætta keppni í Meistaradeild í hestaíþróttum eftir að lið hafa verið skipuð tekur varaknapi sæti þess sem hættir í liðinu. Þá getur liðið tilnefnt til stjórnar nýjan varaknapa í staðinn. Stjórn Meistaradeildarinnar þarf að samþykkja tilnefninguna eða leiðbeina um annan. Hlutverk stjórnar í þessu tilliti er að tryggja að hæfur knapi verði valinn. Stjórnin hefur sömu viðmið og getið er um í kafla 7.

8.2 Knapar sem keppa í Meistaradeild sökum forfalla, keppa á sama grundvelli og aðrir knapar, safna stigum fyrir lið sitt og sækja stig og verðlaun í einstaklingskeppninni eftir gildandi reglum. 

8.3 Stjórn hefur heimild til að leyfa liðum að velja sér knapa utan deildarinnar séu uppi óviðráðanlegar aðstæður eftir að keppnistímabil sé hafið.

9 DÓMSTÖRF 

9.1 Dómarar 

Haft skal að leiðarljósi að velja hæfustu dómara sem völ er á fyrir hvert verkefni. 

9.2 Yfirdómar 

Yfirdómari annast málefni dómara. Yfirdómari hefur vald til að víkja dómara frá keppni hvenær sem er ef honum finnst viðkomandi dómari hafa vikið frá faglegum gildum.Yfirdómari hefur eftirlit með dómstörfum og gefur skýrslu um þau til stjórnar og dómara. 

9.3 Mótsstjórn 

Þrír skipa mótsstjórn, yfirdómari, fulltrúi knapa og aðili valinn af stjórn Meistaradeildar í hestaíþróttum. Mótsstjórn er æðsta vald á mótsstað og hefur þannig vald til að úrskurða ef mál koma upp sem valda ágreiningi. 

9.4 Kærufrestur 

Knapar og lið hafa eina klukkustund eftir lok keppni til að kæra framkvæmd eða útreikninga keppnisgreinar. Að þeim tíma liðnum standa niðurstöður. Kærur sem berast að loknu móti fara á sameiginlegt borð stjórnar, mótsstjórnar og eins fulltrúa knaparáðs, sem verða að kynna niðurstöðu innan tveggja sólarhringa frá því að kæra berst. Einkunnir dómara eru ekki kæranlegar.

9.5 Vallarstjórn

Þrír skipa vallarstjórn, einn úr stjórn, fulltrúi knapa og yfirdómari.  Vallarstjórn tryggir að vellir, reiðhallir, upphitunarsvæði og merkingar séu ásættanlegar degi fyrir æfingar og á mótsdag. Vallarstjórn fer yfir keppnisvæði með leigusölum a.m.k. 1 mánuði fyrir mót hvort úrbóta sé þörf.

 

 

 Fara á forsíðu

FYLGSTU MEÐ!

Bein útsending á oz.com - Náðu í áskrift hér
Watch all the events online - subscribe here

Netáskrift

styrktaraðilar

Höfundaréttur © 2008 - 2015 | Meistaradeildin í hestaíþróttum | Allur réttur áskilinn.